Síðasta vika ársins og árslistinn 2018 birt.

Árslisti Modernus 2018

Svo skemmtilega vill til að 10. stærsti vefurinn á síðasta vikulista ársins er hlidarfjall.is, sem veit bara á gott og þýðir að fjölmargir ætla sér á skíði! Stærstur á listanum er sem fyrr vedur.is, en island.is sækir sífellt í sig veðrið og Veðurstofuvefurinn má hafa sig allan við á nýju vilji hann halda fyrsta sætinu :). Miðað við stöðuga fjölgun notenda island.is í samræmi við fyrri ár þá mun vefurinn hækka úr 75.201 notendum yfir í rétt rúma 100.000 notendur á þessu nýja ári. Það er almenn aukning hjá báðum vefjum. Hjá island.is aukast heimsóknir einkum vegna aukinnar notkunar á Rafrænum skilríkjum og Íslyklinum. Aftur á móti gæti vedur.is minnkað á næsta ári, þrátt fyrir almenna aukningu, þar sem erlendir ferðamenn sækjast mikið í enska útgáfu staðarspárinnar, sem og í norðurljósaspánnar, og ef ferðamönnum á Íslandi fækkar á árinu 2019, frá fyrra ári, getur það vegið á móti almennri aukningu á notkun vefsins.

Mikilvægar upplýsingar fyrir vefhönnuði

Árið 2014 voru algengar skjáupplausnir fyrir borðtölvur 1024x768, 1280x1024 og 1920x1080, með 11%, 8,6% og 10% hlutdeild. Síðan þá hefur hlutdeild þessa skjáupplausna minnkað verulega og var nýliðið ár hið fyrsta, þar sem hin vinsæla upplausn 1280x1024 var svo sjaldséð að hún var flokkuð undir „annað“. Hins vegar er 1024x768 þó enn algeng með nánast sömu hlutdeild og árið 2012, eða 7,5% árið 2018. 1920x1080 er því eina upplausnin sem hefur orðið algengari síðan 2014 og er nú með 14,5%.
Eftir 2014 fjölgaði upplausnum fartölva, sem eru með víðari skjá, en einnig símaskjáa sem eru litlir og mjóir. Þetta er alveg ný staða fyrir vefhönnuði, en fram til ársins 2014 fóru skjáir stækkandi, en nú 4 árum seinna eru skjáir með lága upplausn orðnir ráðandi.

Modernus deild Internets á Íslandi óskar viðskiptavinum sínum gleðilegs nýs árs og þakkar fyrir viðskiptin á árinu sem er að líða. Veflistinn hefur á undanförnum árum þróast yfir í að verða listi yfir merkilega íslenska vefi, en síður listi yfir vefi sem selja auglýsingar, en hann var á árum áður fyrst og fremst listi yfir mest sóttu vefi landsins. Vefjunum á listanum hefur fjölgað nokkuð í ár – þvert á það sem við höfum sjálf spáð. Það hleypir okkur kappi í kinn!

Íslenska netpsjallið Svarbox® er hins vegar á fljúgjandi siglingu og nýlega var ný útgáfa tekin í notkun, sem eldri viðskiptamenn eru einn af öðrum að taka í gagnið. Takk fyrir góðar viðtökur á árinu!

10 mest lesnu fréttir og greinar ársins 2018:

  1. Leikur ekki fyrir Íslands hönd á meðan dæmdir nauðgarar gera það [vf.is]
  2. Hver eru einkenni blóðtappa í fæti? [visindavefur.is]
  3. Trúboð ráðuneytisins [saa.is]
  4. Við verðum að koma böndum á þetta, við erum að missa landið úr höndum okkar [bbl.is]
  5. Hver er eðlilegur blóðþrýstingur? [visindavefur.is]
  6. Skuggahliðar rafbílavæðingarinnar [bbl.is]
  7. Selja fyrirtækið vegna veikinda [vb.is]
  8. „Væri ég dauð útí hrauni með stelpurnar mínar?“ [vf.is]
  9. „Erum að taka rosalega áhættu“ [bbl.is]
  10. Allt betra en liggja heima bryðjandi pillur [skessuhorn.is]

Post created 31. Dec 2018 12:57